Beint ß lei­arkerfi vefsins
Merki ßrbŠjarskˇla

Starfsmannastefna

Starfsmannastefna

Fjárfesting í fólki er lykillinn að velgengni hvers fyrirtækis.  Mikilvægt er að byggja upp fjölbreyttan hóp starfsmanna sem býr yfir ólíkri reynslu og þekkingu.

Markmiðið með starfsmannastefnu Árbæjarskóla er að skólinn hafi alltaf á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem sýna frumkvæði og veita góða þjónustu. Einnig er mikilvægt að þeir bregðist við síbreytilegum þörfum skjólstæðinga sinna. 

Hver og einn á rétt á góðum starfsskilyrðum og möguleika á því að vaxa og dafna í starfi.  Hvatt er til þess að starfsfólk skólans axli ábyrgð, læri nýja hluti, komi með nýjar hugmyndir og sýni það besta sem í því býr.  Mikilvægt er að hver og einn leggi sitt af mörkum til að móta jákvæðan og góðan starfsanda og skapa sterka liðsheild þar sem hreinskilin skoðanaskipti eru viðhöfð við lausn álitamála. Í skólanum er lögð áhersla á teymisvinnu og um leið öfluga samvinnu allra starfsmanna. Með teymisvinnu bæta einstaklingar hvern annan upp og stuðla að faglegri umræðu og framþróun skólastarfs.

Helstu áhersluatriði starfsmannastefnu skólans eru:

      - að laða að skólanum hæft starfsfólk og halda því í starfi

      - að tryggja starfsfólki góð starfsskilyrði og kost á fræðslu og endurmenntun til frekari þróunar í starfi

      - að hver og einn fái verkefni við hæfi og geti á þann hátt notið sín

      - að starfsmenn séu virkjaðir til að móta og bæta starfsemina

      - að starfsmenn séu vel upplýstir um hlutverk þeirra og ábyrgð

      - að gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki innan stofnunarinnar

      - að fyrirbyggja deilur og auðvelda lausnir þeirra

      - að stjórnun skólans sé markviss og ákveðin

      - að starfið í skólanum grundvallist á gagnkvæmri virðingu, trausti, jafnrétti og jafnræði

      - að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar eins og kostur er

 

Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna

Stjórnendur og starfsfólk Árbæjarskóla bera sameiginlega ábyrgð á því að sú þjónusta sem veitt er sé sem best á hverjum tíma og tryggt sé að langtímamarkmiðum sé náð.

Stjórnendur

Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti.  Þeir skulu hafa að leiðarljósi jákvætt viðhorf til starfsmanna sinna, virkt upplýsingastreymi og dreifingu á valdi og ábyrgð.  Þeir bera ábyrgð á störfum starfsmanna sinna og eiga að vinna með þeim að þeim markmiðum sem sett hafa verið.  Einnig eiga þeir að gera starfsmönnum kleift að taka framförum bæði faglega og sem einstaklingar.  Stjórnendur skulu leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um þau.  Stjórnendur eiga að vinna að þeim markmiðum sem sett eru hverju sinni.

Starfsmenn

Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi.  Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heilindum að markmiðum þeim sem starfseminni eru sett.  Þeim ber að hlíta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna.  Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um.  Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.  Starfsmenn eiga að gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem þeir gegna. Þeir forðast að hafast nokkuð það að, sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er þeir vinna við.  Starfsmenn eiga að gæta þess að þiggja ekki greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem endurgjald fyrir greiða.  Þeim ber að hafa í heiðri ýtrustu kröfur um ráðvendni, heiðarleika og réttlætiskennd í störfum sínum.  Æskilegt er að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni.

Starfsþróun – Símenntun

Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum sem starfið gerir til þeirra og skulu reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna.  Stafsþróun er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns og skal m.a. sinnt með starfsmannasamtölum, símenntun og samvinnu.  Starfsþróun og starfsöryggi tengist með beinum hætti.  Stefnt skal að því að starfsmenn eigi kost á símenntun innan sem utan stofnunar til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi.  Það er jafnt á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og annarri þeirri sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi. 

Starfsmannasamtöl

Yfirmaður skal hlutast til um að starfsmannasamtöl séu tekin að minnsta kosti einu sinni á ári.  Í starfsmannasamtali skal leitast við að fá fram hugmyndir viðmælenda um það hvernig hann geti eflt starfshæfni sína og auðgað starfið.  Tilgangur starfsmannasamtala er að tryggja að kröfur og væntingar yfirmanna og starfsmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf.  Ræða skal einnig fræðsluþörf og leiðir til úrbóta.  Þá á starfsmaðurinn í starfsmannasamtali að geta rætt líðan sína á vinnustað, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

Samskipti á vinnustað

Samskipti í Árbæjarskóla skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og jákvæðu viðmóti.  Umburðarlyndi og virðing fyrir nemendum og samstarfsfólki eru grundvallarviðmið sem framar öðru eru til þess gerð að skapa traust í öllum samskiptum.  Hafa skal í heiðri allar almennar siðareglur milli einstaklinga.  Ummæli, tjáning eða annað atferli starfsmanns sem ógnar, truflar eða ögrar og veldur óþægindum verður ekki liðið.  Litið verður á slíka hegðun, svo og á kynferðislega áreitni og einelti, sem alvarleg brot í starfi.  Slík hegðun getur leitt til áminningar og starfsmissis.  Vellíðan á vinnustað er ekki æskileg heldur sjálfsögð réttindi hvers og eins.

Vinnuumhverfi – Vinnuvernd

Stefnt skal að því að vinnuumhverfi sé eins þægilegt og aðlaðandi og aðstæður leyfa.  Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi og skal það vera laust við hættuleg efni og aðra vá eins og kostur er.  Starfsmönnum ber að fylgja þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra um öryggi og aðgát í starfi.  Árbæjarskóli er reyklaus vinnustaður og notkun vímuefna starfsmanna við störf er óheimil.

Siðareglur og starfsagi

Áhersla er lögð á að starfsmenn séu stundvísir og ber stjórnanda að fylgjast með mætingum, fjarveru á vinnutíma og brotthvarfi af vinnustað áður en reglulegum vinnudegi lýkur.  Starfsmenn skulu hafa í heiðri virðingu og trúnað í samskiptum bæði innan skóla og utan er varða málefni þeirra er tengjast starfsemi Árbæjarskóla.  Þá ber starfsmönnum að fara að stjórnsýslulögum, upplýsingalögum og sérstökum siðareglum borgarinnar eins og þær kunna að vera hverju sinni.  Starfsmönnum ber að hlíta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna, sýna heiðarleika, trúmennsku, vandvirkni og gæta þagmælsku um atriði sem þeir verða áskynja í starfi.  Þagnarskylda helst þó látið sé af störfum.

Jafnrétti

Mikilvægt er að hver einstaklingur sé metinn á eigin forsendum og fyllsta jafnræðis sé gætt milli allra starfsmanna.  Í Árbæjarskóla er einstaklingum ekki mismunað eftir aldri, kynferði, kynþætti, fötlun, þjóðerni, né vegna trúar- eða stjórnmálaskoðana.  Stjórnendur skulu sjá til þess að jafnréttisáætlun skólans sé framfylgt og hún endurskoðuð eftir þörfum.

Mikilvægt er að starfsmönnum séu skapaðar aðstæður til að samræma kröfur starfs- og einkalífs eins og kostur er.  Nauðsynlegt er að skapa ákveðinn sveigjanleika í starfi þar sem hægt er að koma því við.  Starfsmönnum skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið vegna fjölskylduábyrgðar.  Starfsmenn skulu því eiga kost á hlutastörfum og sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem aðstæður leyfa.  Stjórnendur skulu hvetja væntanlega feður til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs.  Jafnframt skulu þeir hvetja karla til að vera heima hjá veikum börnum sínum til jafns við konur.


Slˇ­in ■Ýn:

Skˇlinn » Starfsfˇlk » Starfsmannastefna
Mynd

Vissir þú...


Að meðal blýantur getur dregið línu sem er rúmir 56 kílómetrar að lengd áður en blýið klárast?