Beint á leiđarkerfi vefsins
Merki árbćjarskóla

Fréttir

15.3.2013

Árshátíđarvikan

Árshátíð unglingadeildar Árbæjarskóla var haldin með pompi og prakt þann 13. mars. Öll vikan var undirlögð vegna undirbúnings og voru þemadagar mánudag og þriðjudag þar sem skólastarf var brotið upp og nemendur unnu margvísleg verkefni og fengu fjölbreytta fræðslu. Meðal annars fengu þeir kynningu á dauðarokki, horfðu kvikmynda fyrir ungt fólk, gerðu Pollock listaverk, fóru í ratleik og margt fleira. Enn fremur var starfræktur skreytingar- og baksturshópur sem gerði skreytingar og bökuðu möffins fyrir árshátíðardaginn.

Margar hendur komu síðan að því að breyta skólanum í borg kvikmyndanna, Hollywood. Borð og stólar voru flutt í skólann úr Fylkishöllinni og skreytingar voru settar upp. Þegar árshátíðardagurinn rann upp mættu nemendur í hinum ýmsu búningum og mátti sjá íþróttalið, hermenn, prinsessur, sykurpúða og rokkhljómsveitir á göngum skólans. Þessir föngulegu hópar kepptu síðan í hinum furðulegustu greinum í bekkjarleikunum. Það var 9.IA sem bar sigur úr býtum og fékk pizzaveislu í verðlaun.

Rétt fyrir klukkan sex beið síðan prúðbúinn hópur eftir því að húsið yrði opnað. Boðið var upp á girnilega þriggja rétta máltíð sem foreldrar nemenda báru fram. Á meðan á borðhaldinu stóð voru fjölbreytt skemmtiatriði sem náðu hápunkti með sýningu á hinu árlega kennaragríni  sem nemendur höfðu lagt blóð, svita og tár í að gera. Urðu kennarar, skólastjórnendur og starfsfólki skólans miskunnarlaust fórnlömb háðs nemenda og höfðu allir góða skemmtun af ekki síst þeir sem gert var grín að. Það voru þeir Helgi Valur,  Sveinn Aron og Birta  í 10. bekk sem sömdu handritið og leikstýrðu gríninu.

Kynnar kvöldsins voru nemendur úr stjórn nemendafélagsins, Helga Hlín Stefánsdóttir, Guðmundur Karel Haraldsson og Edda Marín Ólafsdóttir. Að loknu borðhaldi komu plötusnúðarnir úr Basic House Effect og héldu þeir nemendum á dansgólfinu það sem eftir lifði kvölds.

Það voru þreyttir, sveittir, sárfættir, en mjög glaðir nemendur, sem héldu út í nóttina rétt fyrir miðnætti. Nemendur gátu síðan sofnað glaðir vitandi að þeir fengju frí í fyrstu tveimur tímunum morguninn eftir.

IMG_4323

Fleiri myndir HÉR.

 


Slóđin ţín:

Skólinn » Fréttir
Mynd

Vissir þú...


Að meðal blýantur getur dregið línu sem er rúmir 56 kílómetrar að lengd áður en blýið klárast?